Earth 101

Earth101 verkefnið snýst um að stefna saman í Reykjavík heimildarmyndagerðarfólki og færustu sérfræðingunum á ýmsum sviðum sem tengjast loftslagsvísindum og menningarlegu áhættumati. Fyrsta ráðstefnan var haldin í október 2013.

Tilgangurinn er að skapa vettvang þar sem margir fremstu hugsuða heims á sviði loftslagsbreytinga og þekkt alþjóðlegt kvikmyndagerðarfólk hittist til að eiga öflugt samtal um þau margþættu vandamál sem óhjákvæmilega fylgja almennri umræðu um umhverfisvána. Þetta er stærsta ógnin sem heimurinn stendur frammi fyrir og fyrsta skrefið í átt að lausn er að mannkynið viðurkenni vandann og átti sig á honum.

Kvikmyndir eru öflugur miðill sem nær yfir öll landamæri og þess vegna getur heimildarmyndin gegnt lykilhlutverki í því að miðla hættum loftslagshlýnunar til sem flestra.

Earth101 verkefnið er styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Bandaríska sendiráðinu á Íslandi, Landsvirkjun, Íslandsstofu, Háskólasetrinu á Vestfjörðum og ýmsum stofnunum innan Háskóla Íslands, ásamt fleirum.

Stofnandi

Guðni Elísson (f. 1964) er prófessor í almennri bókmenntafræði. Hann hefur skrifað tvær bækur og rúmlega fimmtíu greinar á sviði bókmennta, kvikmynda, menningarfræða og umhverfismála. Hann hefur einnig ritstýrt á þriðja tug bóka. Hann hefur sérstakan áhuga á því hvernig pólitískar hugveitur hafa áhrif á umræðu um umhverfismál á Vesturlöndum. 

Meðal greina hans sem fjalla um hnattræna hlýnun og umræðu um umhverfismál og loftslagsbreytingar í íslensku og alþjóðlegu samhengi eru:

Nú er úti veður vont. Gróðurhúsaáhrif og íslensk umræðuhefð,  Ritið 1/2007, bls. 5-44.

„Efahyggja og afneitun. Ábyrg loftslagsumræða í fjölmiðlafári samtímans“,  Ritið 2/2008, bls. 77–114.

„Þið munuð öll deyja! Lita dómsdagsspár hugmyndir manna um loftslagsvísindi?“,  Rekferðir, Reykjavík: Háskólaútgáfan 2011, bls. 298–309, 338–341.

„Dómsdagsklukkan tifar. Upplýsing og afneitun í umræðu um loftslagsmál“,  Ritið 1/2011, bls. 91–136.

„Og syngur enginn fugl“. Hernaðurinn gegn Rachel Carson“,  Tímarit Máls og menningar 3/2011, bls. 24–39.

„Vekjum ekki sofandi dreka. Loftslagsmál, pólitísk umræða og olíuleit á íslenska landgrunninu“,  Tímarit Máls og menningar 4/2011, bls. 8–23.